Hafþór Yngvason
Safnstjóri Western Gallery & Public Art Collection og fyrrum safnstjóri Listasafns Reykjavíkur

„IT’S THE ECONOMY”

English

„Ein af ástæðunum fyrir því að listgagnrýni er svo léleg er að hún er sérlega illa launuð. Við og við kemur einhver fram af viti, en hverfur skjótt aftur.“ (Donald Judd, 1984) Þessi útskýring hljómar sennilega. Ef hjúkrunarfræðingum er þrælað út á of lágum launum mun heilbrigðisþjónustan líða fyrir það — ekki vegna þess að hjúkrunarfræðingarnir séu vanhæfir heldur vegna þess að þeir flytja burt. Eða finna sér hagkvæmari vinnu. Það grefur undan öllu heilbrigðiskerfinu.

Á Íslandi er list jafnvel enn verr borguð en listgagnrýni. Hvers vegna eru þá söfnin full af góðri list? Ef til vill vegna þess að listamenn mæla ekki tíma sinn í vinnustundum. Þeir eru listamenn; þeir líta ekki til baka. Eða vegna þess að söfnin þrífast á undantekningum. En undantekningin sannar regluna, eins og sagt er. Og ef reglan er sú að listamönnum er ekki borgað grefur það undan allri greininni.

Listmarkaðurinn á Íslandi er ekki burðugur, en það þýðir ekki að list sé utan markaðarins. Íhaldsmenn hafa ef til vill rétt fyrir sér í því að gæði eddukvæða verði ekki metin af tímakaupi höfundanna. En það er jafnfamt barnaskapur að halda því fram að list sé óháð hagkerfinu og þar með efnahagslegum þörfum. Lítum aftur til niðursveiflunnar í íslenskri list eftir efnahagshrunið 2008. Ekki var nóg með að söfnin urðu skelin af sjálfum sér, listamenn fluttu burt og listamannarekin rými lokuðu. Listmarkaðurinn nánast hvarf. Hinn minnisverðu orð Bills Clinton koma upp í hugann: „It’s the economy, stupid.”

Markmiðið með þessum skrifum mínum er að benda á að það er ekki aðeins jafnréttismál að listamenn fái borgað fyrir vinnu sína. Þetta snýst um að skapa heilbrigt og hvetjandi vinnuumhverfi. Vinna listamanna og laun þeirra þurfa að vera raunverulegur hluti efnahagslífsins. Heilbrigði alls kerfisins er í veði. Það er ekki nóg að Listasafn Reykjavíkur borgi listamönnum fyrir sýningar. Ein stofnun ætti ekki að vera gerð að undantekningu sem sannar þá reglu að listamenn vinni almennt frítt. Það þarf að vera viðtekin regla. Þess vegna dáist ég að því frumkvæði SÍM að fá söfnin til að skapa sameiginlegan ramma fyrir viðræður við ríkið, borgina og bæjaryfirvöld.

Þegar ég varð safnstjóri Listasafns Reykjavíkur árið 2005 borgaði safnið þegar styrki vegna stórra uppsetninga. Það var ekki há upphæð og hún var ekki sú sama fyrir alla vinnu. En þetta var viðurkenning á að þörfin væri til staðar. Öll hækkun á styrkjum næstu árin stöðvaðist með hruni íslensku bankanna. Þrátt yrir mýtuna um undraverða endurreisn er langt frá því að efnahagskrísan sé yfirstaðin. En umræðan sem SÍM hefur efnt til er drifin áfram af nauðsyn. Listamenn og liststofnanir verða að taka þátt í hinni heitu umræðu í íslensku samfélagi um laun og jafna skiptingu auðæfa. Hættan sem steðjar að söfnum um þessar mundir er ekki að uppbyggingin sé helst til hægfara heldur að niðurskurðurinn verði festur í sessi. Og hættan sem steðjar að listamönnum er að með þeim niðurskurði verði efnahagslegum þörfum þeirra endanlega ýtt til hliðar. Því verða listamenn og listasöfn að sameinast í að krefjast þess að eigendur safnanna geri það að sameiginlegum metnaði sínum að skapa heilbrigt og vaxtarhvetjandi vinnuumhverfi fyrir listirnar.

Hafþór Yngvason

Share

LHI