Hilde Tørdal, myndlistarmaður og formaður NBK

SAMNINGAR LISTAMANNA Í NOREGI

English

SÍM hefur undanfarið undirbúið herferð til að kynna samninga um greiðslur til listamanna sem sýna í söfnum, og opinberum byggingum. Í Noregi má finna jákvætt fordæmi.

Samtök norskra myndlistarmanna (NBK) vinna að velferð og hagsmunum 2.900 félagsmanna. Frá árinu 2008 hefur sambandið vakið máls á því að teknar verði upp greiðslur til listamanna í listasöfnum og listgalleríum sem rekin eru fyrir opinbert fé, einnig samning milli listamanna og gallería um þóknun. Í kjölfar þrýstings frá NBK árið 2013, ásamt Norska lista- og handverksfélaginu (NK), Sambandi sjálfstæðra ljósmyndara (FFF) og Listsambandi Sama (SDS), var farið af stað með tilraunaverkefni þar sem fjögur söfn og gallerí sem fá fjárstyrk frá yfirvöldum tóku upp greiðslur til listamanna í því skyni að móta fyrirkomulag sem hægt væri að nota á landsvísu. Í verkefninu fengu fjögur söfn tvær milljónir norskra króna fyrir tveggja ára tímabil frá 2014 til 2016. Árið 2014 var fjárframlagið vegna komandi árs aukið um tvær milljónir í fjórar milljónir en átta söfnum var bætt við, sem þýddi að hálf milljón kom í hlut hvers safns á þessu tveggja ára reynslutímabili. Í ár var fjárframlagið enn aukið um tvær milljónir þannig að heildarupphæðin varð tólf milljónir (eða ein milljón á safn).

Þótt þessu beri að fagna er hægt að gera meira, segir Hilde Tørdal, myndlistarmaður og formaður NBK. „Við vitum ekki enn hvort þessi tillaga mun ganga í gegn þar sem við búum nú við minnihlutastjórn“, segir hún. „Við vitum heldur ekki hvort fleiri söfn munu bætast í hópinn.“ Samkvæmt Hilde vill NBK tryggja að fjármögnun og fjöldi safna haldist stöðug: „Við höfum sagt frá upphafi að þessar endurbætur muni kosta peninga og að söfnin fái eins og er ekki næga fjármögnun til að geta greitt sanngjarna þóknun til atvinnulistamanna. Tilraunaverkefnið á að leiða í ljós hið raunverulega vinnuframlag myndlistarmanna svo hægt sé að haga greiðslum í samræmi við það. Rétt rúmlega 40 ríkisstofnanir vítt og breitt um Noreg þurfa að geta staðið straum af þeim kostnaði.“

Í haust hóf NBK herferð á samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að kynna samninga um endurgreiðslur til listamanna. Slagorðið var „Lønn For Arbeid“ („Laun fyrir vinnu“) og kassamerkið „utstillingsavtalen“ („sýningarsamkomulagið“), en markmiðið var að kynna staðlaðan samning um sýningarlaun. Samningurinn felur í sér greiðslusamning við ríkið sem þegar var í gildi, ásamt útgjöldum vegna sýninga, auk þess að hvetja til þess að aukið fjármagn verði lagt í stofnanir og gallerí sem hafa samþykkt að nota samninginn.

Árangurinn af „Laun fyrir vinnu“ mun halda áfram að koma í ljós árið 2016 því NBK stefnir nú að því að koma á svæðisbundnum samningum og beitir sér fyrir því að aukið fjármagn verði veitt til meðalstórra gallería sem sýna samtímalist svo þau geti sem fyrst tekið upp samningsfyrirkomulagið.

Bob Cluness

Share
LHI