Fríða Björk Ingvarsdóttir
rektor Listaháskóla Íslands

MYNDLIST ER ÞJÓÐARSPEGILL

English

Allt frá tímum hellamálverka hefur saga mannkyns verið skráð í myndlist. Stundum er það saga pólitískra átaka, landflutninga, trúarbragða eða hamfara, en einnig og ekki síst saga einstaklingsins, hversdagslífsins og tilfinninganna. Það sem við vitum fyrir tilstilli myndlistar er þess eðlis að engin önnur leið hefði getað miðlað þeirri þekkingu. Það er af þessum sökum sem myndlistararfur árþúsundanna er orðinn að einum helsta fjársjóði heimsbyggðarinnar, bæði í menningarlegum og efnahagslegum skilningi.

Myndlist samtímans er samskonar afl og myndlist fortíðar og gildir þá engu hvort hún er forsmáð eða upphafin af þeim sem lifa samtíða henni. Myndlistin lifir sínu eigin lífi sem rannsakandi afl, sem þjóðarspegill, sem áhrifavaldur og gagnrýnisrödd. Hún er í eðli sínu óbugandi, ódrepandi en um leið uppbyggjandi fyrir anda og eðli þeirra sem eru móttækilegir og – eins undarlega og það kann að hljóma – einnig þeirra sem ekki vilja taka þátt í henni. Myndlistin, líkt og aðrar listir, mótar umhverfi okkar allra burt séð frá því hvort við horfum, hlustum eða neytum lista. Michelangelo hefur um árhundruð haft áhrif á líf milljóna manna um heim allan, Frida Kahlo breytti sjálfsmynd Mexikó varanlega, Louise Bourgeoise mótaði hugmyndir samtímans um hlutverk og vitund kvenna, ekki bara í listum heldur heiminum yfirleitt.

Hér á landi á myndlist í hefðbundnum skilningi ekki langa hefð að baki. En þótt arfur okkar sé rýr miðað við marga, værum við enn fátækari ef ekki nyti þeirra sem mótuðu þjóðarvitund 20. aldar í gegnum myndlist, svo sem Nínu Tryggvadóttur, Þorvaldar Skúlasonar, Hildar Hákonardóttur og Hreins Friðfinnssonar. Íslensk myndlist 21. aldar er á fleygiferð í hringiðu samtímalista heimsins sem knýjandi afl ef horft er til Katrínar Sigurðardóttur, Ólafs Elíassonar og Ragnars Kjartanssonar – svo ekki séu taldir allir þeir íslensku myndlistarmenn sem enn eru undir 35 ára aldri en hafa þegar lyft grettistaki í hörðum heimi myndlistar á alþjóðavísu.

Í samhengi þjóðararfleifðar skulum við þó ekki gleyma að myndlist spyr ekki um þjóðerni. Hún spyr ekki um aldur eða kyn, kynhneigð, trúarbrögð eða pólitík, þótt hún fjalli vissulega um þessi mál þar sem ekkert er henni óviðkomandi. Myndlist þverar mæri tungumála, menningarheima og jafnvel ólíkra tíma. Í þeirri víðu skírskotun, í þessum umburðarlynda, upplýsandi og oft á tíðum krefjandi miðli, er svigrúm fyrir allar þær hugmyndafræðilegu vangaveltur sem ögra viðteknum gildum í fagurfræði, vísindum, félagslegum þáttum og sjálfsmynd samfélagsins. Í því felst gildi hennar fyrir okkur öll og okkar sameiginlegu arfleifð, ekki bara sem þjóðar heldur sem þátttakenda í stærra samhengi.

Þótt íslensk myndlist standi styrkum stoðum í hugmyndafræðilegum skilningi nýtur hún ekki sannmælis hér á landi sem það hreyfiafl sem hún sannarlega er. Myndlistarsöfn og sýningarstaðir búa við fjársvelti, myndlistarmenn fá ekki laun fyrir vinnu sína á opinberum söfnum, en búa árvisst við það ámæli sem fylgir neikvæðri umræðu um listamannalaun. Við þurfum að minna okkur á að myndlistarmenn eru hámenntaðir sérfræðingar sem renna styrkum stoðum undir sameiginleg auðævi okkar allra með rannsóknum sínum og listsköpun. Hugsum til þeirra á degi myndlistar, njótum verka þeirra og sýnum samtöðu um framtíðaruppbyggingu á þessu merkilega fræðasviði.

Fríða Björk Ingvarsdóttir
rektor Listaháskóla Íslands.

.

Share
LHI