Hlynur Hallsson myndlistarmaður og safnstjóri Listasafnsins á Akureyri

ERU ALLIR HÉRNA Í SJÁLFBOÐAVINNU?

Til skamms tíma þótti það bara eðlilegt að myndlistarmenn settu upp eigin sýningarnar á söfnum í sjálfboðavinnu. Þetta var jú vinnan þeirra og sýningin þeirra. Hvort þeir fengju einhver laun fyrir hana var annað mál. Allavega áttu launin að koma annarstaðar frá. Í einhverjum tilfellum var meira að segja farið fram á það við listamennina að þeir gæfu verk fyrir það að fá að sýna. Einkennilegar aðstæður og einhvernvegin súrrealískar. En hvað gerir maður ekki fyrir það að fá að sýna á almennilegu safni? Og ef þetta er það sem þarf til og aðrir taka þátt í þessu þá gerir maður það líka. Eða hvað?

Okkur finnst það sjálfsagt að fólk fái greidd laun fyrir vinnuna sína, flutningsaðilinn sem flytur verkin, smiðurinn sem smíðar veggi, prentarinn sem prentar sýningarskrá, sýningarstjórinn og sá sem situr yfir sýningunni ættu allir að fá laun. En á þá listamaðurinn sem ver tíma og orku að setja upp sýninguna ekki að fá neitt? Á hann bara að treysta á að selja eitthvað af sýningunni uppí kostnað? Er það sanngjarnt. Bíddu leyfðu mér aðeins að hugsa…eee. Svarið er nei, það er ekki sanngjarnt og ekki eðlilegt.

Sem betur fer hafa nokkur söfn á landinu gengið á undan með góðu fordæmi og greitt listamönnum einhverja upphæð fyrir vinnuna sem þeir leggja í að setja upp eigin sýningar. Auðvitað er aldrei til nægur peningur til að gera þetta almennilega en þá er bara að gera nýja fjárhagsáætlun og gera ráð fyrir þessum eðlilega kostnaði. Það er að minnsta kosti hægt að byrja á einhverri táknrænni upphæð, það er skref í rétta átt.

Eðli sýninga er auðvitað ólíkt og kostnaðurinn einnig og tekjurnar sennilega stærsti óvissuþátturinn. Á endanum er þetta allt samningsatriði. En allir hljóta að viðurkenna að það er eðlilegt að allir þeir sem koma að uppsetningu sýningar fái eitthvað greitt fyrir vinnu sína en ekki bara sumir. Best væri að gera þetta í góðri samvinnu milli safna og myndlistarmanna. Það er örugglega ekki hægt að koma einhverju fullkomnu kerfi upp sem allir eru sáttir við á einni nóttu en það er hægt að þoka málunum í rétta átt. Og við þurfum ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum heldur er hægt að líta til dæmis til norðurlandanna eða Þýskalands til að sjá hvernig málunum er háttað þar á bæ.

Ég er viss um að hægt er að koma á eðlilegra starfsumhverfi fyrir listamenn, skref fyrir skref. Einn þátturinn í því eða að viðurkenna að það sé sjálfsagt að listamenn fái greitt fyrir sína vinnu eins og aðrir. Það er gott fyrir söfnin, samfélagið og listamennina.

Hlynur Hallsson

myndlistarmaður og safnstjóri Listasafnsins á Akureyri

.

Share

LHI