Ragna Sigurðardóttir
myndlistarmaður og rithöfundur

ER STUNDUM Í LAGI AÐ GEFA VINNU SÍNA?

English

Þegar ég byrjaði að skrifa grein um það af hverju myndlistarmenn fengju ekki alltaf greitt fyrir vinnu sína hafði ég bak við eyrað að velta upp þeim aðstæðum sem við þekkjum. Stundum borga söfn og sýningarsalir öllum sem koma að myndlistarsýningu nema listamanninum sjálfum. Þetta tengist viðhorfinu í samfélaginu almennt. Ánægjan er talin bestu laun listamannsins. Eitthvað í þeim dúr.

En spurningunni má líka snúa við: Af hverju vinna listamenn launalaust? Þá mundi ég eftir því þegar ég var í hlutverki leiðindapúkans fyrir ekki löngu.

Mér barst tölvupóstur á Facebook:

Sæl og blessuð, þannig er að ég er sýningarstjóri á ( ). Ég er að leita að manneskju til að stjórna spjalli ( ). Þessi fræðsludagskrá er sett á næstu þrjá ( ). Sé fyrir mér í mesta lagi klukkutíma spjall, yrði væntanlega úti nema veðrið væri slæmt þá er líka hægt að vera inni. Sama manneskjan þyrfti ekki endilega að taka að sér alla 3 dagana ( ). Því miður hef ég ekki peninga til að greiða fyrir þetta, þannig að ég er að leita eftir sjálfboðaliða sem gæti haft gagn og gaman af þessu. Ef þetta er eitthvað sem þú gætir hugsað þér þætti mér mjög vænt um að heyra frá þér. Kær kv. ( )

Nú á ég ekkert sökótt við viðkomandi og sýni póstinn bara sem dæmi, það skiptir ekki máli hver átti í hlut. Viðkomandi var þó að vinna innan ramma stærra sviðs sem venjulega greiðir listamönnum og því fannst mér eitthvað skjóta skökku við, án þess að vita nákvæmlega hvernig í pottinn var búið. Mér fannst þetta óþægileg bón, ég hafði líka hugsað mér að gera annað þá daga sem voru í boði, sem voru að auki um helgar. Svo ég hummaði fram af mér að svara.

Eftir nokkurn tíma fékk ég símtal. Ég neitaði og sagðist helst ekki vinna svona án þess að fá greitt. Ég var spurð hvort mér þætti málefnið ekki brýnt. Ég játaði því en lét mig ekki. Á endanum benti ég á starfsmann á safni sem kannski þekkti yngra fólk sem væri frekar til að reyna sig við svona verkefni í sjálfboðavinnu. Þó finnst mér ekki að ungir ættu frekar að vinna launalaust en eldri, þetta var bara dálítið örvæntingarfull tilraun til þess að binda enda á símtalið.

Að þessu loknu reyndi ég að þagga niður í samviskubitinu og sjálfsásökunum sem sóttu á mig. Allir aðrir hefðu án efa gert þetta bara til þess að hafa gagn og gaman af því, ég væri nú meira merkikertið og leiðindapúkinn. Og hefði ég ekki bara átt að segja já? Ég hef ekki fengið mörg verkefni undanfarið.

Ætli margir kannist ekki við svona hugsanir? Er þetta ekki dæmi um það hvers vegna listamenn vinna oftar en ekki í sjálfboðavinnu? Enginn vill vera merkikerti og leiðindapúki, hafna sýningarboði, taka ekki þátt í samsýningu eða hvað sem er nú í boði; hafna verkefni á þeim forsendum að eðlilegt væri að greiða fyrir vinnuna sem í því felst. Ekki síst þar sem verkefnin og tækifærin eru ekki mörg í litlu samfélagi.

Vandi listamannsins felst ekki síst í því að greina á milli: Hvenær er óhætt að krefjast greiðslu og hvenær er í lagi að vinna ókeypis? Því stundum er það nefnilega í lagi.

Kannski væri hægt að opna einhvers konar siðferðislegan umræðugrundvöll um einmitt þetta, fyrir hinar ýmsu starfsstéttir listamanna. Hvaða greiðslur eru í gangi? Væri ekki ágætt að myndlistarmenn, rithöfundar, tónlistarfólk, fræðimenn og fleiri opnuðu sig um þessi mál? Ég fæ til dæmis greiddar 20.000 krónur fyrir að skrifa þessa grein …

Ragna Sigurðardóttir

Share

LHI