Eirún Sigurðardóttir myndlistarmaður

ATRIÐI ÚR STARFSUMHVERFI MYNDLISTARMANNA: BRANDARI, DULARFULL RÁÐGÁTA EÐA EITTHVAÐ ALLT ANNAÐ

English

Uhh, ertu ekki að djóka! Er myndlistarmönnum sem boðið er að sýna ný verk á Listasafni Íslands ekki borguð laun fyrir að vinna að sýningu fyrir safnið? Það verður að segjast eins og er að það er frekar absúrd að svara því neitandi þegar stórum spurnaraugum er beint að manni. Þetta er óneitanlega frekar skrýtin staða því það eru sennilega ekki mörg dæmi um starfsstéttir sem vinna samt kauplaust fyrir lykilstofnanir á sínu sviði, þrátt fyrir að vera burðarásar þessara stofnana. Það skal tekið fram að starfsfólk Listasafnsins kemur til móts við sýnendur eftir bestu getu en um bein laun til myndlistarmanna er ekki að ræða. Ástæðan fyrir því að ég tek Listasafnið sem dæmi í tengslum við starfsumhverfi myndlistarmanna er vegna stöðu þess sem höfuðsafns myndlistar á Íslandi en safninu virðist gert að starfa innan ákaflega þröngs fjárhagsramma miðað við skyldur sínar.

Til þess að setja þessa dularfullu stöðu myndlistarmanna í víðara samhengi er hægt að bera kjör þeirra saman við aðrar starfsstéttir t.d. að bera saman kjör myndlistarmanna sem er boðið að sýna á Listasafni Íslands og kjör lausráðinna leikstjóra sem er boðið að sýna hjá Þjóðleikhúsinu. Þessi samanburður er ekki úr lausu lofti gripinn því að myndlistarmenn bera sambærilega ábyrgð og leikstjórar gagnvart sýningum sínum og þessar stofnanir teljast báðar til höfuðstofnana innan sinna listgreina. Bæði myndlistarmenn og leikstjórar koma tímabundið að þessum menningarstofnunum og leggja til krafta sína, listræna hæfileika, reynslu og metnað. Báðir eru listrænir stjórnendur og bera ábyrgð á því að verkefnið gangi upp og sé skilað á réttum tíma í góðum gæðum, síðan er mismunandi hversu mikil mannaforráð og umfang fylgja hverju verkefni. Einnig mætti benda á að þegar myndlistarmenn sýna t.d. innsetningar og gjörninga eru sýningarnar einnig jafn stað- og tímabundnar og hver önnur leiksýning. En ef samningar myndlistarmanna við Listasafnið eru bornir saman við samninga lausráðinna leikstjóra við Þjóðleikhúsið verður staða okkar myndlistarmanna frekar undarleg.

Gert er ráð fyrir að lausráðinn leikstjóri við Þjóðleikhúsið fái greidd laun fyrir vinnu sína sem samsvarar 5 mánaðarlaunum skv. samningi Félags leikstjóra við Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem Þjóðleikhúsinu ber að fara eftir og fær væntanlega fjárveitingar samkvæmt. Engir sambærilegir samningar hafa verið gerðir af Sambandi íslenskra myndlistarmanna sem tryggja mundu myndlistarmönnum laun fyrir vinnu sína og safninu fjárveitingu til þess að greiða þeim launin. Það er því einstaklega ánægjulegt að vita til þess að nú er verið að leggja áherslu á hagsmunamál af þessu tagi innan Sím og óskandi að um þau náist breið samstaða og fljót framganga.

Ef haldið er áfram með samanburð lausráðinna leikstjóra og myndlistarmanna þá er gert ráð fyrir því hjá Þjóðleikhúsinu að leikhúsið standi straum af öllum kostnaði við framkvæmd sýninganna. Hins vegar er gert ráð fyrir því að myndlistarmenn standi straum af öllum kostnaði við framkvæmd verka sinna og komi með þau, í flestum tilfellum, tilbúin inn á Listasafnið, sem síðan kostar vinnu við aðlögun á sýningarrými sínu. Þetta er sambærilegt við það að leikstjóra væri boðið að vinna kauplaust að leiksýningu fyrir Þjóðleikhúsið sem hann ætti svo að kosta að fullu og koma með nánast tilbúna til sýningar. Aðstöðumunur þessara tveggja starfstétta er því nokkuð mikill og ástæða til þess að skoða hvað við myndlistarmenn getum gert til þess að rétta okkar hag og fá greidd laun fyrir okkar vinnu.

Maður getur ekki annað en velt fyrir sér í hverju sameiginleg hagsmunabarátta okkar myndlistarmanna hefur verið fólgin á síðustu misserum. Eða erum við sátt við að vera nokkurs konar listrænir niðursetningar í þessu samhengi? Það er ekki beinlínis valdeflandi að setja sig í þau spor en smám saman eftir 18 ára starf í faginu fara aumingjaskilaboðin sem starfsumhverfið býður uppá að smjúga inn í merginn. Það vill maður ekki. En hvernig er hægt að breyta þessari stöðu myndlistarmanna og á hverra valdi er það? Hagsmunasamtaka listamanna/Sím? Safnanna sjálfra? Fjármálaráðuneytisins? Menningar- og menntamálráðuneytisins? Mínu? Þínu? Ég held það sé allavega ljóst að ef við myndlistarmenn viljum láta bera virðingu fyrir starfi okkar og framlagi til samfélagsins og listarinnar verðum við að standa saman og gera kröfur um viðunandi starfsumhverfi. Dæmin hér á undan um mismunun listgreina milli tveggja opinberra stofnanna er allt hið súrasta mál fyrir myndlistarmenn og hinn opinbera geira sem metur vinnuframlag innan listgreinanna svo ójafnt til fjár. Þetta eru kannski engin sérstök geimvísindi, við myndlistarmenn þurfum að tala um réttindamál okkar og berjast fyrir þeim, sumt er bara ekki í lagi.


Eirún Sigurðardóttir er sjálfstætt starfandi myndlistarkona. Hún er einnig stofnandi og 1/3 Gjörningaklúbbsins/The Icelandic Love Corporation sem hefur verið starfandi frá 1996 og sýnt fjölda sam- og einkasýninga víða um heim. Eirún hefur kennt reglulega við Listaháskóla Íslands frá 2001. Hún hefur jafnframt verið í stjórn Nýlistasafnsins og Myndhöggvarafélagsins. Hún útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1996 og stundaði 2 ára framhaldsnám við Hochshule der Künste Berlín en býr nú og starfar í Reykjavík. Nánar: www.this.is/eirun og www.ilc.is

.

Share
LHI