VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM

Að loknu sex ára listnámi á háskólastigi tekur við stutt veruleikasjokk á meðan maður spyr sig hvernig eigi að lifa á þessu fagi. Svo hugsar maður sinn gang og fer yfir stöðuna: jú, það er möguleiki að sækja um styrk úr Myndlistarsjóði – kannski fær maður listamannalaun í 6 mánuði; svo vinnur maður eina samkeppni um útilistaverk eða fær tækifæri á að skapa verk í opinberu rými úr Listskreytingarsjóði. Ef maður er duglegur og vinnur vel endar maður á að fá boð um einkasýningu í Listasafni Íslands. Allt telur og maður elur með sér örlitla von um að geta borgað fyrir húsaleigu, skólagöngu fyrir sjálfan sig og börnin sín og mat á borðið. 

Eftir vel heppnaða einkasýningu í opinberu listasafni, rennur svo upp fyrir manni, að það sitja ekki allir við sama borð. Allir, nema einn, fá greitt: listasafnsstjóri, safnfulltrúi, sýningarstjóri, ræstitæknir, tæknimennirnir og svo mætti lengi telja- allir fá greitt nema listamaðurinn. Ofan á það hefur Myndlistarsjóður verið skertur um 33%, þ.e. úr 52 milljónir króna í 35 milljónir; Listskreytingarsjóður, fyrir eldri byggingar er tómur og ekkert virkt eftirlit er með því hvort farið sé að lögum um að verja skuli að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í byggingunni sjálfri og umhverfi hennar; listamannalaun eru undir lágmarkstekjum og hafa úthlutanir mánaðafjölda staðið í stað síðan 2012.

Skilningur stjórnvalda er ekki nægur; það vantar meiri innsýn í okkar störf og því þarf að breyta. Einnig þarf að koma til hugarfarsbreyting hjá listamönnunum sjálfum og þeim sem starfa í starfsumhverfi listarinnar. Hér og nú er tækifærið.  Ef ekki við, þá hver? Ef ekki núna, hvenær þá? Nú höfum við í höndunum verkfæri – drög að samningi milli myndlistarmanna og opinberra listasafna –  verkfæri sem við getum beitt fyrir okkur, til að breyta gamalli hefð við sýningarhald í listasöfnum sem rekin eru með opinberum framlögum. Þennan samning þarf að kynna, fyrir okkar rétti þarf að berjast og þessi hugarfarsbreyting þarf að ná í gegn.

Nú gefst tækifæri að breyta þeirri rótgrónnu hugmynd að myndlistamenn eigi ekki að fá borgað fyrir vinnu sína. 

Herferðin VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM verður sett af stað þann 20. nóvember nk. kl. 16.00 í Norræna húsinu. Tilgangur herferðarinnar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og gera listamönnum kleift að fá greitt fyrir vinnu sína. Þegar litið er til annarra listgreina er sjaldséð að listamenn með reynslu og sérþekkingu á sínu fagsviði, eins og þeim sem boðið er að sýna í opinberum söfnum, fái ekki greitt fyrir vinnuframlag sitt. Það er von stjórnar SÍM að herferðin nái að valda hugarfarsbreytingu hjá myndlistarmönnum, almenningi, forsvarsmönnum safna og menningarstofnana svo og stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga. 

Miðja herferðarinnar eru ný samin drög að samningi um þátttöku og framlag listamanna til sýningahalds.  Drögin geta orðið grundvöllur að samningi við öll söfn á Íslandi og sýningar sem eru fjármagnaðar af opinberum aðilum, að hluta eða öllu leyti.

Að frumkvæði Sambands íslenskra myndlistamanna var ákveðið að setja saman starfshóp í samstarfi við Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Hafnarborg Menningar- og listamiðstöð, Nýlistasafnið, Listasafn Árnesinga og Listasafn Akureyrar.

Í starfshópnum sátu fyrir hönd SÍM, Ilmur Stefánsdóttir og Úlfur Grönvold myndlistarmenn. Fyrir hönd safnanna sátu Þorgerður Ólafsdóttir safnstjóri Nýlistasafnsins og Dr. Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafn Íslands. Verkefnastjóri starfshópsins var Ásdís Spanó, myndlistarmaður.

Við gerð draganna leit starfshópurinn til sænska MU samningsins, en sænska ríkið skrifaði undir samning um þóknun til listamanna sem sýna verk sín í opinberum söfnum í Svíþjóð árið 2009. MU (Medverkande og utstallningsersattning) samningurinn eins og hann hefur verið nefndur er samningur um þátttöku listamanns og þóknun fyrir sýnd verk. Slík þóknun er viðbót við greiðslur fyrir flutning, uppsetningu og útgáfu á efni fyrir sýningar listamanns. Í samningnum er kveðið á um að öll vinna sem listamenn taka að sér í tengslum við sýningar, bæði fyrir, eftir og meðan á sýningu stendur þarf að greiða sérstaklega fyrir. Gera skal skriflegan samning um þau atriði sem greiða þarf laun fyrir, samkvæmt taxta samningsins, ásamt því að greiða þóknun fyrir sýnd verk. MU samningurinn hefur verið fyrirmynd sambærilegra samninga í Noregi og Danmörku, auk þess sem er verið að vinna að gerð samninga í Finnlandi og Austurríki, með MU samninginn að leiðarljósi. 

Stjórn SÍM fagnar framkomnum drögum að samningi sem listasöfn og listamenn geta stuðst við. Unnið er að kostnaðargreiningu samningsins miðað við næstliðið starfsár safnanna, til að vita hver áhrifin yrðu af því að vinna eftir samningnum. Það er vitað mál að listasöfn á Íslandi hafa ekki bolmagn að mæta auknum kostnaði. Þess vegna þurfa þeir sem vinna í starfsumhverfi myndlistarinnar að vinna saman sem ein heild: svo að breyta megi hugarfarinu og að meiru fjármagni verði veitt til málefna myndlistarinnar, svo hægt verði að fara eftir samningum. Það er eðlilegt að krefjast þess að starfsumhverfi myndlistarmanna líkist betur starfsumhverfi annarra fagstétta. 

Til viðbótar við vinnuna við nýjan samning milli listamanna og opinberra listasafna, hefur SÍM hafið tvíþætta undirskriftasöfnun til að minna á mikilvægi stóru opinberu sjóðanna fyrir störf myndlistarmanna og listfræðinga. Niðurskurði á megin sjóðum myndlistarmanna: Myndlistarsjóði og Listskreytingasjóði er mótmælt og skorað er á Alþingi að sýna stórhug og framsýni í verki með því að veita 52 milljónum króna í Myndlistarsjóð og 10 milljónum króna í Listskreytingasjóð fyrir árið 2016. Áætlað er að afhenda Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, undirskriftarlistann á stóra fundinum í Norræna húsinu 20. nóvember nk. 

Ég þakka starfshópnum sem unnið hefur að samningnum fyrir góða vinnu og þakka listasöfnunum gott samstarf. Einnig þakka ég öllum sem komið hafa að vinnu herferðarinnar VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM.

Næstu mánuði verður afar mikilvægt að listamenn standi saman og vinni saman að því að fá greitt fyrir vinnuna sína. Núna er tíminn, við skulum breyta. 

Jóna Hlíf Halldórsdóttir

formaður SÍM