VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM

VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM

VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM

SKILABOÐ

English

Herferðin „VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM” er hafin! Tilgangur hennar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Það er undantekning meðal annarra listgreina, að listamenn með reynslu og sérþekkingu á sínu sviði fái ekki greitt fyrir vinnuframlag sitt. Það er eðlileg krafa að myndlistarmenn séu metnir að verðleikum á sama hátt og aðrir listamenn.

Það er von stjórnar SÍM að herferðin hafi víðtæk áhrif hjá myndlistarmönnum, almenningi, forsvarsmönnum safna og menningarstofnana, svo og stjórnvöldum.

Þungamiðja herferðarinnar er samningur um þátttöku og framlag listamanna til sýningahalds. Drögin geta orðið grundvöllur að samningi við öll listasöfn á Íslandi og sýningar í galleríum, sem fjármagnaðar eru af opinberum aðilum, að hluta eða öllu leyti.

Að frumkvæði Sambands íslenskra myndlistarmanna var ákveðið að setja saman starfshóp í samstarfi við Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Hafnarborg menningar- og listamiðstöð, Nýlistasafnið, Listasafn Árnesinga og Listasafn Akureyrar. Í starfshópnum sátu fyrir hönd SÍM, Ilmur Stefánsdóttir og Úlfur Grönvold, myndlistarmenn. Fyrir hönd safnanna sátu Þorgerður Ólafsdóttir, safnstjóri Nýlistasafnsins, og dr. Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands. Verkefnastjóri starfshópsins var Ásdís Spanó, myndlistarmaður.

Við gerð draganna leit starfshópurinn til sænska MU (Medverkande og utstallningsersattning)-samningsins, en sænska ríkið skrifaði undir samning um þóknun til listamanna, sem sýna verk sín í opinberum listasöfnum í Svíþjóð, árið 2009. Slík þóknun er viðbót við greiðslur fyrir flutning, uppsetningu og útgáfu á efni fyrir sýningar listamannsins. Í samningnum er kveðið á um að greiða þurfi sérstaklega fyrir alla vinnu sem listamenn taka að sér í tengslum við sýningar, bæði fyrir, eftir og meðan á sýningu stendur. Gera skal skriflegan samning um þau atriði sem greiða þarf laun fyrir, samkvæmt taxta samningsins, ásamt því að greiða þóknun fyrir sýnd verk. MU-samningurinn hefur verið fyrirmynd sambærilegra samninga í Noregi og Danmörku. Unnið er að gerð samninga í Finnlandi og Austurríki, með MU samninginn að leiðarljósi.

Stjórn SÍM fagnar mikilvægum áfanga með samningi sem listasöfn og listamenn geta stuðst við. Söfnin sem unnu að samningum, með SÍM, hafa gert kostnaðargreiningu miðað við sýningar yfirstandandi árs og er kostnaður við að fara eftir framlagssamningum í kringum 100 miljónir. Það er vitað mál að listasöfn á Íslandi hafa ekki bolmagn til að mæta auknum kostnaði. Þess vegna þurfa þeir sem vinna í starfsumhverfi myndlistarinnar að vinna saman sem ein heild; svo að breyta megi viðteknum venjum til hagsbóta fyrir báða aðila. Nauðsynlegt er að veita auknu fjármagni til málefna myndlistarinnar, svo hægt verði að innleiða áðurgreindan samning.

Ég vil nota tækifærið og þakka starfshópnum sem unnið hefur að gerð samningsins fyrir frábært starf. Ég vil þakka listasöfnunum fyrir samvinnuna og árangursríkt samstarf. Að lokum þakka ég öllum þeim sem komið hafa að vinnu herferðarinnar „VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM“.

Næstu mánuði verður afar mikilvægt að listamenn standi saman og berjist fyrir hagsmunum sínum. Núna er tíminn,við skulum breyta.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir
formaður SÍM

Share

LHI